Samlífi fólks og örvera í daglegu lífi

 


Móðurkúltúr: Skyrgerlar og kvennaarfur

Höfundar: Jón Þór Pétursson, Valdimar Tr. Hafstein

Ágrip:

Hér verður sjónum beint að samlífi kvenna og skyrgerla í gegnum skyrgerð í aldanna rás. Landnámsmennirnir fluttu með sér þekkingu til skyrgerðar og hefur það verið hluti af matarræði þjóðarinnar frá landnámi til dagsins í dag. Í gegnum aldirnar voru það konur sem sinntu skyrgerðinni og tryggðu að þekkingunni og skyrgerlunum væri miðlað frá móður til dóttur. Skyrgerð hefur því í gegnum tíðina byggst á hefðbundinni færni og þekkingu, smekk og skynminni sem var miðlað frá kynslóð til kynslóðar, og hún er líka til vitnis um langvarandi samlífi ólíkra tegunda lífvera. Undanfarna tvo áratugi hefur skyr, þessi hversdagslega mjólkurfæða Íslendinga í gegnum aldirnar, verið endurskilgreint sem þjóðlegur matararfur og hluti af hinum alþjóðlega markaði fyrir ofurfæði. Árið 2007 tókst Slow Food að koma hefðbundnu skyri á „bragðörkina“ með því að skilgreina hefðbundið skyr í andstöðu við iðnaðarframleiðslu á skyri. Innlendir og erlendir skyrframleiðendur hafa tekið undir þessa skilgreiningar og markaðssetja nú skyr með vísun í kvennaarf og upprunalega skyrgerla. Í fyrirlestrinum fjöllum við um hvernig samlífi kvenna og skyrgerla hefur tekið stakkaskiptum á 20. og 21. öld í ljósi breytts samfélags, tækniþróunar og stöðlunar á matarframleiðslu. Hvað getur þróun skyrgerðar á Íslandi sagt okkur um breytingar á framleiðsluháttum, kynjahlutverkum, neysluvenjum og samlífi fólks og gerla?

Efnisorð: Skyrgerð, Samlífi, Kynjahlutverk, Skyrgerlar, Matarhættir


Það jafnast ekkert á við brauð

Höfundar: Ragnheiður Maísól Sturludóttir

Ágrip:

Erindið byggir á yfirstandandi eigindlegri rannsókn um tengingu reyndra súrdeigsbakara við súrdeigið sitt. Fjallað verður um tilfinningalega og líkamlega tengingu bakaranna við súrdeigið sitt, ástæður þess að fólk kýs að baka sitt eigið súrdeigsbrauð og hvaða áhrif ólík hegðun súrdeigsins hefur á bakarann. Vinsældir súrdeigsbaksturs hafa aukist svo um munar síðustu ár. Súrdeigsbrauð er orðið mun aðgengilegra en áður þar sem handverksbakarí spretta upp á öðru hverju götuhorni. Þó að flest geti keypt nýbakað súrdeigsbrauð í næsta nágrenni þá eru mörg sem kjósa að halda úti sínu eigin súrdeigi og baka sitt eigið brauð. Súrdeigsbrauð byggir á hægfara ferli sem getur tekið allt að 72 klukkutíma. Til þess að baka gott súrdeigsbrauð þarf bakarinn að eiga heilbrigt súrdeig sem þarf að hugsa um og fóðra reglulega. Heilbrigt súrdeig samanstendur af milljónum örvera sem gerja deigið og gefa brauðinu bragð og lyftingu. Bakari, sem vill baka gott súrdeigsbrauð, er því háður því að súrdeigið sé heilbrigt. Að sama skapi er súrdeigið háð því að bakarinn fóðri og hugsi vel um það, til þess að það haldist heilbrigt. Súrdeigsbakstur byggir þ.a.l. á samlífi og samvinnu bakarans og örveranna í súrdeiginu. Í erindinu verður skoðað hvaða merkingu bakstur og þetta samlífi fólks og örvera hefur í hinu daglega lífi súrdeigsbakara.

Efnisorð: Þjóðfræði, Efnismenning, Matarmenning, Samlíf fólks og örvera


Að taka ábyrgð á eigin skít: Viðhorf og reynsla fólks af notkun þurrsalerna og moltun salernisúrgangs

Höfundar: Eysteinn Ari Bragason

Ágrip:

Í The Humanure Handbook bendir Joseph Jenkins lesendum á að við búum í lokuðu vistkerfi. Humanure myndar hann úr ensku orðunum human (ísl. maður) og manure (ísl. mykja) til að undirstrika það að líkaminn skili frá sér verðmætum og hvetur hann lesendur til að endurmeta gildi þessa lífræna efnis og molta það. Þannig megi, á öruggan máta, skila næringarefnum aftur út í eðlilega hringrás náttúrunnar í stað þess að losa þau í vatn með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Að taka ábyrgð á eigin skít með því að molta hann, í stað þess að sturta honum niður, þar sem hann verður hlutur á röngum stað (Douglas, 1966), er leið til þess að endurmeta tengsl okkar við örverur sem lifa í okkur, á okkur og eiga þátt í að gera líkama okkar starfhæfan og heiminn byggilegan. Vinnan við moltugerðina felur í sér samstarf við lífverur sem fólk á venjulega ekki í nánum tengslum við og ennfremur fæst það við efnivið sem hverfur úr huga margra jafn skjótt og honum er sturtað niður. Með dæmum úr eigindlegri rannsókn, sem enn er í vinnslu, lýsir erindið viðhorfum og reynslu fólks á Íslandi af notkun þurrsalerna og moltun salernisúrgangs. Rannsóknin dregur fram ólík viðhorf þar sem einhverjir sjá tækifæri í því að umbreyta salernisúrgangi í næringarríkan jarðveg, með aðstoð örvera og annarra smádýra, á meðan aðrir lýsa áhyggjum af sóttkveikjum eða hryllir við tilhugsuninni um annars konar salernislausnir en þau eiga að venjast.

Efnisorð: örverur, samlífi, molta, þurrsalerni, vistkerfi


Af moldu/-tu erum við komin, að moldu/-tu munum við aftur verða.

Höfundar: Helga Ögmundardóttir

Ágrip:

Í þverfræðilega rannsóknarverkefninu „Samlífi fólks og övera í daglega lífinu“, sem hlaut öndvegisstyrk frá Rannís, er einn hlutinn helgaður endurnýtingu á lífrænum úrgangi með hjálp örvera, einkum moltugerð. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir fyrstu niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á moltugerð á Íslandi þar sem notuð voru viðtöl, tekin af rannsakendum, við fólk sem stundar moltugerð með ýmsum aðferðum, og spurningalistakannanir sem Þjóðminjasafn Íslands sendi út í samvinnu við rannsakendur og þátttakendur svöruðu rafrænt. Markmið þessarar molturannsóknar er einkum að grennslast fyrir um aðferðir við moltugerð, þekkingu og þekkingaröflun moltugerðarfólks, skynjun og skilning á því sem fram fer þegar lífrænn úrgangur verður að moltu, samskipti við aðra um moltugerðina og síðast en ekki síst hvernig fólk notar, skilur og skynjar hlutverk örvera, sem og annarra lífvera, í þessu undirstöðuferli í lífríkinu. Sjónum er bæði beint að einstaklingum og fjölskyldum og svo sveitarfélögum og fyrirtækjum – allt innan ramma endurnýtingar lífræns úrgangs og moltugerðar – en í þessu erindi verður sérstaklega horft á hvernig einstaklingar, og þeirra nánasta félagslega umhverfi, stunda moltugerð. Fyrstu niðurstöður benda meðal annars til að fólk hugsi einfaldlega ekki svo mikið um hvaða örverur eru að verki né hvernig þær stuðli að niðurbroti lífræns úrgangs og efnis heldur treysti því að þær lífverur sem eru að störfum í safnhaug/-kassa/-holu – örverur eins og bakteríur, sveppir og veirur, ánamaðkar og önnur smádýr, mýs og hvaða aðrir gerendur sem eru þar að verki – sinni sínu hlutverki og gefi þeim svarta og gómsæta moltu eftir tvö eða þrjú ár.

Efnisorð: Molta, Örverur, Lífrænn úrgangur, Endurnýting, Umhverfismál, Skynjun


Event Details
Event Details