Ofbeldi í nánum samböndum: Ólík sjónarhorn

Málstofustjóri: Jón Ingvar Kjaran

Umfjöllun um ofbeldi fer líklega ekki fram hjá neinum enda tala staðreyndir opinberra stofnana sínu máli og um efnið er fjallað nær daglega í fjölmiðlum. Í kjölfar #metoo byltingarinnar varð ákveðin vitundarvakning um útbreiðslu, alvarleika og ólíkar birtingarmyndir kynbundins ofbeldis. Jafnframt hefur að undanförnu talsvert verið fjallað um þá sem beita ofbeldi enda dró #metoo byltingin og nýlegar frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi fram umfang ofbeldis í garð kvenna sem að mörgu leyti má rekja til kynjakerfisins. Hins vegar er umfjöllun um ofbeldi fjarri því að vera ný af nálinni og langt er síðan fræðimenn fóru að leita skýringa og spyrja um hlut ofbeldis í mannlegri tilvist. Sumir hafa tekið svo djúpt í árinni og haldið því fram að félagsmótun mannsins einkennist af ofbeldi þar sem beisla þurfi innri hvatir hans og laga að ríkjandi viðmiðum samfélagsins. Það má hins vegar velta því fyrir sér að hvaða leyti ofbeldi liggur í samfélagsgerðinni. Hvað sem ólíkum útskýringum á ofbeldi líður, þá er mikilvægt að draga fram reynslu einstaklinga sem eiga hlut að máli og þá meðal annars hvernig hún mótast af ríkjandi orðræðu. Í því samhengi mun málstofan hafa það að markmiði að draga fram reynslu einstaklinga af ofbeldi, jafnt þeirra sem verða fyrir því og þá sem því beita. Í málstofunni verður fyrst stutt inngangserindi um ofbeldi. Því næst verða tvö erindi um annars vegar reynslu kvenna af erlendum uppruna af ofbeldi í nánum samböndum og hins vegar um reynslu karla sem beitt hafa ofbeldi. Að lokum vera umræður um efnið.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Hvað er ofbeldi? Kenningar og útskýringar fræðanna á ofbeldi

Ofbeldi er eins og valdið alltumliggjandi og má segja að það sé hluti af mannlegri tilveru. Ástæða þessa er sú að flest okkar erum á hverjum degi mótuð af ofbeldi, hvort sem við verðum vitni af slíku, sjáum birtingarmyndir þess í fjölmiðlum eða verðum beint eða óbeint fyrir því. Fæstir verða þó fyrir beinu líkamlegu ofbeldi á lífsleiðinni en slíkt fer þó eftir ýmsum þáttum á borð við búsetu, efnahag, stétt, kyn, kynhneigð og kynþátt. Svo dæmi sé tekið er mun líklegra að verða fyrir ofbeldi ef viðkomandi er fæddur í Afríku sunnan Sahara eða búandi í fátækrahverfum stórborga Evrópu eða Ameríku. Konur og stúlkur eru jafnframt líklegri til að verða beittar ofbeldi. Á heimsvísu er talið að þriðja hver kona hafi orðið einhvern tímann á lífsleiðinni fyrir líkamlegu ofbeldi í nánu sambandi.  Alþjóðlegar stofnanir og ríki víðs vegar um heim hafa því undanfarna áratugi beint athyglinni að kynbundnu ofbeldi og hvernig draga megi úr því. Í þessu inngangserindi verður fjallað um ofbeldi og birtingarmyndir þess með sérstakri áherslu á ofbeldi í garð kvenna innan veggja heimilisins og í nánum samböndum. Einnig verða ræddar hugmyndir fræðimanna um ofbeldi og hvernig þeir skilgreina það. Í þeim efnum verður kastljósinu einkum beint að skrifum Walter Benjamin, Slavoj Zizek, Judith Butler og Hannah Arendt.

Jón Ingvar Kjaran

Lykilorð: ofbeldi, kenningar, kynbundið ofbeldi

Um karla sem beita konur ofbeldi í nánum samböndum

Á heimsvísu verður þriðja hver kona fyrir ofbeldi af hálfu karlmanns í nánu sambandi og hefur það aukist í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Stjórnvöld víða um heim skilgreina ofbeldi í nánum samböndum sem alvarlegt lýðheilsuvandamál. Enda eru neikvæðar afleiðingar miklar, meðal annars er slæm heilsa algeng meðal kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi. Hingað til hafa rannsóknir einkum beinst að þeim sem verða fyrir ofbeldinu en nú er sjónum líka beint að fólki sem því beita. Rannsóknin byggir á viðtölum við sjö karla sem leituðu sér aðstoðar fagaðila til að komast úr vítahring ofbeldisins. Leitast er við að svara spurningum um skýringar þeirra á ofbeldinu, um  þeirra til að takast á við ofbeldisfulla fortíð sína. Tekið er mið af feminísku sjónarhorni. Áherslan er einnig á samfélagslega heildarsýn og hvernig feðraveldið viðheldur valdbundnum aðstæðum í nánum samböndum. Jafnframt er leitast við að skoða einstaklingsbundna reynslu og hvernig orðræðan mótar sjálfsveruna. Við greiningu á gögnum var annars vegar notast við líkan Hearn um skýringar karla á ofbeldi sem þeir hafa framið í nánum samböndum. Hins vegar var leitað til kenninga Foucault um sjálfsveruna og siðferðilega möguleika einstaklingsins til viðnáms og breytinga.

Guðrún Kristinsdóttir og Jón Ingvar Kjaran

Lykilorð: kynbundið ofbeldi, útskýringar á ofbeldi, meðferð

Epistemic Violence towards immigrant women in Iceland: Silencing, smothering and linguistic deficit

This talk examines how immigrant women’s stories, which were shared as a result of the #metoo movement in Iceland, exemplify aspects of how culture and institutions in Iceland are complicit in the silencing of immigrant women who experience violence, both in intimate partner and employment situations. Through a critical analysis of ten of the 37 narratives shared by immigrant women in Iceland the author explores how testimonial smothering and silencing both produce and reproduce epistemic violence in the women’s lives. As a result, the talk explores how several factors in Icelandic culture and within institutional structures are illuminated through the women’s narratives. A significant aspect of the discourse was the focus on “linguistic purity” of the Icelandic language maintains these exclusionary practices. Cultural hegemonic understandings of violence and services lead to misrecognition and silencing of the culturally diverse experiences contained in the narratives. Recognition of hegemonic practices is important in the continued development of a more equitable society and a first step in the inclusion of diverse voices in the continued development of the diversifying Icelandic knowledge society.

Brynja E. Halldórsdóttir

Lykilorð: epistemic violence, testimonial silencing, testimonial smothering

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45
Höfundar erinda
Prófessor emeritus
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45