Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og framtíðaráskoranir

Málstofustjóri: Karl Friðriksson

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Skilgreining, saga og þróun námssviðsins nýsköpunar- og frumkvöðlamennt

Í erindinu verður gefið yfirlit yfir sögu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar (NFM) og skilgreining á því námssviði hvernig NFM hefur þróast sem námssvið síðan fyrir aldamótin 1900*. Þó    ekki sé fullkomið samkomulag um hvað NFM innifelur, þá má greina tilteknin einkenni. Á ensku birtast ólíkar áherslur námssviðsins í mismunandi en skyldum hugtökum eins og entrepreneurship education, enterprise education og entrepreneurial education. Dæmi verða tekin um framkvæmd námssviðsins í skólastarfi.

Á íslensku eru ýmist notuð hugtökin nýsköpunarmennt, nýsköpunar- og frumkvöðlamennt eða frumkvöðlamennt eftir því hvaða áherslur námssviðsins á að draga fram og á hvaða skólastigi það er boðið. Aðferðir og námskeið og áfangar í NFM hafa verið í boði á háskólastigi,  í listum, viðskiptafræði, tæknifræði og kennaramenntun meðal annars á Íslandi.  Frumkvöðlamennt og eða nálgun NFM hefur verið í námskrám á framhaldsskólastigi á Íslandi en lítill hluti heildarfjölda nemenda notið slíkrar menntunar.

NFM kom fram í aðalnámskrá grunnskóla 1999 sem áherslusvið undir heitinu Nýsköpun og hagnýting þekkingar og á sama tíma var í svipuðum anda kynnt í bresku námskránni Craft, Design og Technology. Námssviðið þróaðist hér á landi sem kennsluhættir sem byggja á eflandi kennslufræði með eflingu sjálfskilnings einstaklinga og að glíma við raunverulegar þarfir og koma skapa lausnir fyrir sig og samfélagið.

Allyson Macdonald og Rósa Gunnarsdóttir 

Lykilorð: Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, Öll skólastig, Eflandi kennslufræði

Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt: Þróun og viðhorf

Á síðustu áratugum hefur þörfin fyrir að efla skapandi færni og framtakssemi einstaklinga í nútíma samfélagi fengið aukið vægi. Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (NFM) var gjarnan kynnt sem menntun sem þjónar efnahagslegum þörfum samfélagsins en á seinni árum einnig sem menntun sem eflir einstaklinginn sem skapandi og gagnrýninn þjóðfélagsþegn. Tilgangurinn með rannsókninni sem hér er kynnt er að meta stöðu námssviðsins í skólastarfi á Íslandi og greina hvað þarf til að efla það. Markmiðið er að varpa ljósi á viðhorf til NFM á tveimur skólastigum og hvernig þau hafa þróast á síðustu áratugum.

Árið 2004 voru staða og viðhorf til frumkvöðlakennslu í grunn- og framhaldsskólum könnuð. Í lok árs 2020 var gerð heildstæð könnun meðal kennara og skólastjórnenda, í grunn- og framhaldsskólum á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Framtíðarseturs Íslands um NFM. Rýnt var í þróun á viðhorfi skólafólks og stöðu nýsköpunar og frumkvöðlamenntar milli framangreindra kannana. Samanburður kannananna sýnir að skilningur skólafólks á NFM hefur þróast frá þröngum skilningi á NFM sem námsgrein sem snýst um fyrirtækjarekstur og viðskipti yfir í að vera námsreynsla sem eflir nemendur til nýsköpunar og framtakssemi á fjölbreyttum sviðum.

Svanborg R Jónsdóttir, Karl Friðriksson og Eyjólfur Eyjólfsson

Lykilorð: Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, Nýsköpun og framtakssemi, Viðhorf skólafólks

Straumar og munstur í menntun á grunn- og framhaldsskólastigi

Árið 2020 var gerð samanburðarkönnun að frumkvæði Framtíðarseturs Íslands um mögulegar viðhorfsbreytingar skólafólks á grunn- og framhaldsskólastigi vegna hugsanlegra breytingarafla í skólastarfi til ársins 2028, meðal annars vegna tilkomu COVID-19. Fyrri könnunin var gerð árið 2018 en þær eru báðar unnar í samstarfi við Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og KPMG. Markmiðið með könnunum er að skapa umræðu um viðhorf, tækni og hugsanlega strauma sem skólastarfið stendur frammi fyrir. Svarendur eru skólastjórnendur og kennarar.

Með könnununum vill Framtíðarsetur Íslands fá fram viðhorf skólafólks til nýjunga á sviði mennta, hvaða þætti hagaðilar í skólastarfi telja mikilvæga um framvindu náms og uppbyggingu þekkingar. Þó nokkur umræða hefur átt sér stað um framtíðarþarfir vinnumarkaðarins þegar kemur að hæfni starfsfólks og hugsanlega breyttar áherslur í menntun. Almennt má segja að litlar innbyrðis breytingar hafi orðið á gildi þeirra þátta sem spurt var um frá árinu 2018 til ársins 2020. Ef eitthvað er hefur gildi atriðanna í huga svarenda lækkað hvað varðar mikilvægi. Samræmi er þó milli kannananna innbyrðis. Helstu niðurstöður þeirra eru þær að skólafólk telur að framtíðin verði í takt við nútímann, þ.e. að skólastofan haldi velli, starfhættir breytist lítið og tæknin muni hafa lítil áhrif á kennarastarfið fram til ársins 2028.

Karl Friðriksson, Svanborg Rannveig Jónsdóttir og Eyjólfur B. Eyjólfsson

Lykilorð: Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, Nýsköpun og framtakssemi, Viðhorf skólafólks

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 09:00
  • End Date
    29/10, 2021 10:45
Höfundar erinda
Aðjúnkt
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur
Annað / Other
Sérfræðingur
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 09:00
  • End Date
    29/10, 2021 10:45