Móðurhlutverk og mæðrun

Málstofustjóri: Sunna Símonardóttir

Mæðra-rannsóknir eru vaxandi svið innan íslenskra félagsvísinda. Í móðurhlutverkinu kristallast samfélagslegar hugmyndir okkar um kvenleikann. Hin sögulega áhersla á hið sérstaka móðureðli hefur, í fortíð jafnt sem samtíð, tengt konur við einkasviðið og hefur þessi staðsetning þeirra margvísleg áhrif á stöðu þeirra innan sem utan heimilis, hvort sem þær velja móðurhlutverkið eða hafna því. Í þessari málstofu verður fjallað um nýjar rannsóknir á móðurhlutverkinu út frá ólíkum hliðum og með fjölbreyttum rannsóknaraðferðum. Gerð verður grein fyrir rannsóknum á því hvernig konur upplifa eftirsjá þegar kemur að móðurhlutverkinu, hvernig orðræðan um mikilvægi „náttúrulegra“ fæðinga hefur áhrif á skynjun kvenna af eigin líkama í fæðingu, hvernig fatlaðar konur upplifa stuðning í móðurhlutverkinu og birtingarmyndir aukinna krafna og kynjaðar verkaskiptingar á heimilislíf í heimsfaraldri. Í málstofunni verður gerð grein fyrir rannsóknum sem allar hafa það að markmiði að skoða móðurhlutverkið, mæðrun og kröfur kvenleikans með gagnrýnum hætti til þess að varpa ljósi á hvernig móðurhlutverkið hefur bein og óbein áhrif á allar konur.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Regretting Motherhood: not “an impossible possibility”

The  expectation that all women will at some point in their life desire children, become mothers, and enjoy the role of motherhood remains, for the most part, unchallenged. This presentation examines the forbidden territory of regret in motherhood. We posit that an unwillingness to explore regret as a possible emotion in motherhood skews reality. Moreover, we contend that alienating mothers who experience feelings of regret is harmful to all women, and people who can bear children, as it defies emotional logic; perpetuates mythical motherhood scenarios and robs women of critical information that might otherwise be helpful when making reproductive choices. Critical discourse analysis is applied to the preliminary results from eight semi-structured, qualitative interviews with women who have experienced regret in motherhood. From a feminist perspective, we explore contrary discourses to the fixed ideal that all women will accept and enjoy their role as mothers, thus transforming our understanding of the complex nature of motherhood and allowing a space for differing ideas and identities.

Margaret Anne Johnson and Gyða Margrét Pétursdóttir

Lykilorð: móðurhlutverk, eftirsjá, tilfinningareglur

Hvað er svona femínískt við það að þjást?: Notkun kvenna á mænurótardeyfingu í fæðingu

Það að fæða barn er ein sársaukafyllsta reynsla sem þekkist. Notkun mænurótardeyfinga fyrir fæðandi konur er algengasta og áhrifamesta leiðin til þess að milda þennan sársauka og er bæði almenn og algeng á Íslandi. Femínískir rannsakendur hafa margir skilgreint mænurótardeyfingar, auk annarra inngripa, sem hluta af sjúkdómsvæðingu fæðingarinnar, þar sem konur eru oft skilgreindar sem viljalaus verkfæri læknastéttarinnar eða hins sjúkdómsvædda heilbrigðiskerfis. Í þessari viðtalsrannsókn er leitast við að greina viðhorf og upplifanir íslenskra kvenna sem eiga von á sínu fyrsta barn til fæðingarinnar, sársauka í fæðingu og orðræðna um hið „náttúrulega“ og hið „sjúkdóms­vædda“. Tekin voru 38 hálf-stöðluð viðtöl við óléttar konur og nýbakaðar mæður þar sem spurt var út í viðhorf til fæðingar­innar og undirbúning og upplifun af fæðingunni. Niðurstöður benda til þess að menningarlega og innan heilbrigðiskerfisins sé „náttúruleg“ fæðing (án deyfinga) skilgreind sem eftir­sóknar­verð og jafnvel valdeflandi. Þrátt fyrir að viðmælendur séu með­vitaðar um hina ráðandi orðræðu, þá nýta þær sér flestar mænu­rótardeyfingu þegar þær fæða börn sín og lýsa deyfingunni sem dásamlegri og hjálplegri. Greining viðtala varpar ljósi á það hvernig líkami móður er agaður með orðræðu hins „náttúru­lega“ og hvernig konur upplifa og mótmæla þeim aga. Höfundar telja því mikilvægt að endurskoða með gagnrýnum hætti andstæðupörin náttúrlegt/sjúkdómsvætt þegar kemur að fæðingarreynslu. Grein með efni rannsóknar hefur verið birt í tímaritinu Feminism & Psychology.

Sunna Símonardóttir og Annadís Gréta Rudólfsdóttir

Lykilorð: fæðingar, femínismi, sjúkdómavæðing

„Ég var með stöðugt samviskubit yfir því hvort að ég væri í raun og veru góð móðir“: Áhrif nýfrjálshyggjuhugmynda á reynslu fatlaðra kvenna af formlegum og óformlegum stuðningi í móðurhlutverkinu

Í þessu erindi verður reynsla fatlaðra kvenna af formlegum og óformlegum stuðningi í móðurhlutverkinu skoðuð og hvernig normatívar hugmyndir um móðurhlutverkið og nýfrjálshyggju­hugmyndir hafa áhrif á hvernig fatlaðar mæður nýta sér aðstoð. Um er að ræða fyrstu niðurstöður doktorsrannsóknar en tekið var eitt rýnihópaviðtal og 12 hálfopin einstaklingsviðtöl við fatlaðar og langveikar mæður með ólíkar skerðingar. Gögnin voru greind með þemagreiningu Braun og Clarke. Niðurstöður sýna að þátttakendur í rannsókninni fá misvísandi skilaboð um hvort það að þiggja aðstoð geri þær að „slæmum“ eða „góðum“ mæðrum. Á sama tíma og sumum fötluðum mæðrum er ekki treyst í móðurhlutverkinu eru þær gjarnan smánaðar fyrir að óska eftir stuðningi. Þá er það reynsla þeirra að ríkjandi kynjahugmyndir um fatlaðar konur geri það að verkum að gengið er út frá að þær geti ekki bæði þegið aðstoð og annast börn sín samtímis. Sumum þátttakendum þykir erfitt að óska eftir aðstoð og óttast fordóma frá barnaverndarkerfinu og félagsþjónustu. Þær lýsa eftirsjá með að hafa ekki óskað eftir aðstoð til þess að geta notið móðurhlutverksins betur. Sumar mæðurnar höfðu upplifað forræðishyggju, stimplun og niður­lægingu frá þeim sem veittu aðstoð og lögðu því áherslu á að mikilvægur þáttur í valdeflingu þeirra væri að geta stýrt hver veitir aðstoðina og hvernig þær nýta hana sem fatlaðar mæður.

Freyja Haraldsdóttir og Annadís Gréta Rudólfsdóttir

Lykilorð: fatlaðar konur, móðurhlutverkið, nýfrjálshyggja

Glundroði einkenndi svefn, mataræði og atferli barnanna:  Kynjuð orðræða um fjölskyldulíf á tímum heimsfaraldurs

Þessi rannsókn notar póststrúktúralískar kenningar til að greina þemu í orðræðum um fjölskyldulíf á tímum heimsfaraldurs. Skóla- og tómstundastarf barna var verulega skert vorið 2020 sem skapaði álag á útivinnandi foreldra. Rannsóknir sýna að kröfur til foreldra barna, einkum mæðra, hafa aukist gríðarlega í auðugum ríkjum heims og því er mikilvægt að skilja með hvaða hætti fólk skilur foreldrahlutverkið á tímum heimsfaraldurs og skerts skólastarfs. Sögulokaaðferð (e. story-completion method) var notuð til að afla gagna en alls söfnuðust 97 sögur.  Gögnin voru þemagreind og skoðað hvaða orðræðum um foreldarhlutverkið og fjölskyldulíf þemun tengdust. Stærstur hluti þátttakenda voru háskólamenntaðar konur og því varpa niðurstöðurnar einkum ljósi á samfélagið út frá þeirra sjónarhorni. Þemun sýna átök á milli krafna foreldrahlutverksins og atvinnuþátttöku. Þessum átökum er einkum mætt á þrennan hátt: Með aga og jákvæðni, með mótspyrnu eða með uppgjöf. Þátttakendur ávörpuðu ólíka þátttöku mæðra og feðra í heimilishaldi meðal annars með því að láta heimfaraldurinn kenna karlrembum lexíu í húsverkum. Greinin birtist í tímaritinu Gender, Work and Organization.

Auður Magndís Auðardóttir og Annadís Gréta Rudólfsdóttir

Lykilorð: COVID-19, mæðrun, fjölskyldulíf

„Ég nenni ekki þessu ástandi en reyni að vera jákvæð, sérstaklega við manninn og börnin“ Tilfinningavinna á tímum Kórónaveirunnar

Nýlegar rannsóknir um verkaskiptingu á heimilum benda til þess að kynbundin verkaskipting hafi komið enn skýrar fram meðan á Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst og aukið enn á ólaunaða vinnu kvenna. Rannsóknin byggir á dagbókarrannsókn sem framkvæmd var meðan kórónufaraldurinn stóð sem hæst hér á landi í mars og apríl. Markmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif Covid-19 faraldursins á heimilislíf, heimilisstörf og umönnun barna, en alls tóku um 50 foreldrar þátt í rannsókninni. Hér verða kynntar niðurstöður sem byggja á opnum dagbókar­færslum tæplega 40 mæðra en ljóst er að skerðingar á leik- og grunnskólastarfi, lokanir framhaldsskóla, háskóla og vinnustaða, auk breytinga á starfsöryggi fólks höfðu víðtæk áhrif á daglegt líf þátttakenda. Mikill tími fór í að sinna heimanámi og hafa ofan af fyrir börnum á sama tíma og flestir þátttakendur þurftu að skila fullu vinnuframlagi að heiman. Mæðurnar voru þó stað­ráðnar að mæta þessum breyttu aðstæðum með jákvæðni og að láta hvergi bilbug á sér finna. Þær inntu af hendi tilfinningavinnu með því að passa upp á vellíðan annarra fjölskyldumeðlima og styðja þá andlega. Þær fela vanlíðan sína og stress til að gera ekki aðra fjölskyldu­meðlimi áhyggjufulla, létta andrúmsloftið á heimilinu og róa fjölskylduna. Niðurstöðurnar verða settar í samhengi við skilgreiningar á tilfinningavinnu mæðra og hug­ræna byrði þeirra í heimilishaldinu.

Andrea Hjálmsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir

Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 11:00
  • End Date
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 656 5845 8176
Höfundar erinda
Nýdoktor / Post doc
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Nýdoktor / Post Doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Senior Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 11:00
  • End Date
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 656 5845 8176