Málstofa um ferðamál I: Ferðamennska, mannvirki og náttúra

Málstofustjóri: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir

Í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum, stendur Rannsóknamiðstöð ferðamála fyrir þremur málstofum um ferðamál á Þjóðarspegli 2021.

Erindin sem flutt verða fjalla öll um ferðamál í fjölbreytilegu samhengi sem þó má gróflega setja í þrjá undirflokka: ferðamennska, mannvirki og náttúra; áhrif heimsfaraldurs og samfélag og menning.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Innviðir á miðhálendi Íslands: Óskir ferðaþjónustunnar

Miðhálendi Íslands er mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustuna og eru þar ýmsir vinsælir áfangastaðir fyrir erlenda og innlenda ferðamenn. Ásýnd miðhálendisins hefur smám saman tekið breytingum en í gegnum tíðina hafa verið byggðir vegir og orkumannvirki en jafnframt skálar, göngustígar og önnur aðstaða fyrir ferðamenn. Uppbygging innviða hefur hins vegar áhrif á hvers konar ferðamennska byggist upp á svæðinu og hverjir ferðast þar um. Sumir ferðamenn vilja ferðast um lítt spillta náttúru með takmörkuðum mannvirkjun á meðan aðrir vilja meiri þægindi og þjónustu. Í ljósi mikilvægis ferða­þjónustunnar fyrir efnahag þjóðarinnar er mikilvægt að þekkja óskir greinarinnar varðandi frekari þróun innviða á mið­hálendinu. Í þessari rannsókn eru kynntar niðurstöður úr raf­rænni spurningakönnun sem lögð var fyrir ferðaskrifstofur og ferðasala dagsferða. Svör fengust frá um 380 fyrirtækjum sem samsvarar rúmlega 40% svarhlutfalli. Niðurstöðurnar staðfesta að miðhálendið er mikilvægur vettvangur fyrir íslenska ferða­þjónustu og óskar greinin eftir þátttöku í umræðu um skipulag og stjórnun miðhálendisins til framtíðar. Meirihluti svarenda telur að fjölga megi salernum og merktum göngu­leiðum á hálendinu, en töluvert færri telja æskilegt að byggja hótel og sölustaði fyrir veitingar. Um helmingur telur að hálendisvegir ættu að fá betra viðhald en færri vilja að vegirnir verði upp­byggðir eða með bundnu slitlagi.

Margrét Wendt og Anna Dóra Sæþórsdóttir

Lykilorð: ferðaþjónusta, miðhálendið, innviðir

Viðhorf ferðaþjónustunnar til miðhálendisþjóðgarðs

Miðhálendi Íslands gegnir mikilvægu hlutverki fyrir ferða­þjónustuna. Náttúra þess er hins vegar viðkvæm og sums staðar eru uppi hættumerki um að ágangur ferðamanna sé orðinn of mikill. Svæðið er einnig mikilvægt til annarrar landnýtingar eins og t.d. beitar og orkuframleiðslu og eru ýmsir möguleikar til frekari nýtingar. Í lok árs 2020 lagði umhverfis- og auðlinda­ráðherra fram stjórnarfrumvarp um stofnun miðhálendis­þjóðgarðs með það að markmiði að vernda náttúru svæðisins og jafnframt tryggja að ferðamenn geti áfram skoðað og notið þess. Í ljósi mikilvægi miðhálendisins fyrir ferðaþjónustuna er brýnt að þekkja afstöðu greinarinnar til nýtingar svæðisins, þar með talið til stofnunar þjóðgarðs. Í erindinu eru kynntar niður­stöður úr netkönnun sem gerð var meðal ferðaskrifstofa og ferðasala dagsferða. Svör fengust frá rúmlega 380 fyrirtækjum sem er rúmlega 40% svarhlutfall. Niðurstöðurnar sýna að ferða­þjónustan telur aðdráttarafl miðhálendisins felast í víðerni og fjölbreyttri náttúru. Skiptar skoðanir eru um hvort stofnun hálendisþjóðgarðs sé góð leið til þess að varðveita þessa eiginleika. Fleiri (44%) eru andvígir stofnun hálendisþjóðgarðs en hlynntir (40%). Þeir sem eru neikvæðir gagnvart tillögunni óttast skertan aðgang að hálendinu og reglur sem hamla starf­semi fyrirtækjanna. Þeir sem eru jákvæðir í garð hálendis­þjóðgarðs telja hann geta aukið aðdráttarafl svæðisins og stuðlað að aukinni náttúruvernd.

Anna Dóra Sæþórsdóttir

Lykilorð: ferðaþjónusta, miðhálendi, þjóðgarður

The interrelationships of renewable energy infrastructure and tourism: Findings of a systematic literature review

Increasing renewable energy developments point to the need for investigating how renewable energy infrastructure (REI) affects tourism. This systematic literature review aims to map out the present knowledge on the interrelationships of REI and tourism, to identify the type and character of these inter­relationships and the factors affecting them. Online databases Scopus and Web of Science were used for the search of relevant academic articles which were selected based on predefined selection criteria. Later a content analysis of descriptive in­for­mation was conducted to identify emerging themes and articles were categorized accordingly. The findings of the review revealed that the topic receives increasing attention. The increase is the highest for the studies investigating the per­ceptions, attitudes, and behaviour of tourism stakeholders as well as for economic valuation studies, followed by land­scape/environmental/land use planning studies, while the number of methodological and theoretical studies is still rela­tively low. The reviewed articles point to the heterogeneity of the tourism stakeholder attitudes towards REI, and con­sequently to a wide range of impacts on tourist experience, recreational opportunities, and tourism demand. REI and tour­ism not only rely on the same natural resources, but also on each other: tourism creates more demand for energy and needs renewable energy for reducing its CO2 emissions, while high reliance on tourism affects economic benefits of REI in the area.

Edita Tverijonaite og Anna Dóra Sæþórsdóttir

Lykilorð: renewable energy, tourism, literature review

Vindmyllur í byggð – bjargráð eða umdeildar búsifjar?

Aukinn áhuga á virkjun vinds til raforkuframleiðslu á Íslandi má greina í fjölda umsókna um virkjunarleyfi frá erlendum og íslenskum fyrirtækjum. Umræða um framtíðaruppbyggingu vind­orkuvera sækir einnig í sig veðrið og átakalínur að mótast um þætti eins og staðsetningu og leyfisveitingarferli. Einungis hafa verið reistar tvær vindmyllur saman á tveimur stöðum, við Búrfell og í Þykkvabæ, því er reynsla af nábýli við stórar vind­myllur og vindorkuver lítil hérlendis. Í erindinu er rýnt í hvaða rök íbúar og landeigendur í Þykkvabæ og í dreifbýli þar sem áform eru um vindorkuver færa á móti eða með vindorkuverum í sinni sveit. Áherslan er á að greina þætti sem snerta lífsgæði búsetu og frístundadvalar á umræddum svæðum, auk viðhorfa til áhrifa á núverandi og framtíðar tekjumöguleika. Rannsóknin byggir á greiningu á athugasemdum almennings í skipulagsferli, innsendum greinum og viðtölum. Meðal helstu áhyggjuefna eru röskun á útsýni og kyrrð, sem dragi úr lífsgæðum og hafi mögu­lega áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu, frístundabyggðar og núverandi tekjur af veiðitengdri ferðamennsku á sumum svæðum. Hagnaður af uppbyggingu er talinn fara mest til ein­stakra landeigenda og orkufyrirtækja, fremur en staðar­samfélagsins.

Magnfríður Júlíusdóttir

Lykilorð: vindorkuver, viðhorf íbúa, dreifbýli

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45
Höfundar erinda
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45