Málstofa um ferðamál II: Áhrif heimsfaraldurs

Málstofustjóri: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir

Í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum, stendur Rannsóknamiðstöð ferðamála fyrir þremur málstofum um ferðamál á Þjóðarspegli 2021.

Erindin sem flutt verða fjalla öll um ferðamál í fjölbreytilegu samhengi sem þó má gróflega setja í þrjá undirflokka: ferðamennska, mannvirki og náttúra; áhrif heimsfaraldurs og samfélag og menning.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Sumarið 2020 er eitt besta ferðasumar sem ég man eftir! – Ferðahegðun og upplifun Íslendinga á tímum COVID-19

Engin atvinnugrein hefur fengið á sig jafn harðan skell og ferða­þjónustan af völdum COVID-19 á heimsvísu. Ferða­takmarkanir í upphafi árs 2020 höfðu óneitanlega mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu þar sem flugsamgöngur nánast lögðust af. Sumarið 2020 dró úr vexti heimsfaraldursins og gripu íslensk stjórnvöld til þess ráðs að hvetja Íslendinga til þess að ferðast innanlands. Ferðaþjónustufyrirtæki kepptust við að lækka verð og stjórnvöld gáfu Íslendingum 5.000 kr. ferðagjöf sem hvat­ningu til ferðalaga innanlands. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi ferðast innanlands síðustu ár var fyrirséð að breyting yrði á ferðahegðun þeirra vegna mikilla takmarkana á landamærum. Í lok árs 2020 var lögð fram rafræn spurningakönnun þar sem markmiðið var að kanna breytta ferðahegðun Íslendinga og upplifun þeirra á ferðalögum innanlands. Niðurstöður sýna aukningu í ferðalögum innanlands milli ára og að almennt hafi svarendur verið ánægðir með ferðalög sín, sérstaklega ef horft er til fækkunar erlendra ferðamanna á Íslandi. Svarendur töldu að ferðaþjónustan hafi ekki verið tilbúin til þess að taka á móti Íslendingum þar sem erfitt reyndist að fá upplýsingar um þjónustu á íslensku. Niðurstöðurnar gefa jafnframt til kynna að Íslendingar séu ekki vanir því að vera ferðamenn í eigin landi.

Elva Dögg Pálsdóttir

Lykilorð: ferðahegðun, upplifun, ferðalög innanlands

Viðhorf heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu á tímum Covid-19

Kórónuveirufaraldurinn hefur breytt öllum forsendum ferða­þjónustunnar sem hefur orðið fyrir meiri röskun vegna veirunnar en flestar aðrar atvinnugreinar. Faraldurinn gæti breytt til fram­búðar hvernig fólk ferðast og sömuleiðis haft áhrif á hegðun og viðhorf ferðamanna og íbúa. Í erindinu er sjónum beint að upplifun íbúa í byggðum landsins af ferðamönnum og ferða­þjónustu í heimsfaraldri. Gagna var aflað veturinn 2020-2021 á fimm stöðum; Akureyri, Mývatnssveit, Ísafirði, Höfn í Hornafirði og 101 Reykjavík. Tekin voru eigindleg viðtöl við íbúa (3 rýnihópaviðtöl á Akureyri og 44 einstaklingsviðtöl á hinum stöðunum) og megindleg spurningakönnun var lögð fyrir úrtak íbúa á hverjum stað. Rannsóknin leiddi í ljós að áhrif brotthvarfs ferðamanna úr samfélagi heimamanna voru mismunandi eftir stöðum. Fækkun ferðamanna virtist hafa litil áhrif á Ísafirði en á hinum stöðunum var breytingin mun sýnilegri í samfélaginu. Aðhvarfsgreining á megindlegum gögnum rannsóknarinnar sýndi á öllum stöðum að áhrif faraldursins á tekjur einstaklinga sem störfuðu í ferðaþjónustu voru neikvæðari en á tekjur ein­staklinga í öðrum atvinnugreinum. Niðurstöðurnar benda til þess að Covid-19 faraldurinn hafi dregið fram mikilvægi ferða­þjónustu í atvinnulífi svæðanna.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir

Kófið tæklað – Rannsókn á bjargráðum í ferðaþjónustu

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur leitt til mikillar niðursveiflu í hagkerfinu og er ferðaþjónusta sú atvinnugrein sem mun fara sem verst út úr þessu ástandi og mun líða fyrir það næstu árin, þar á meðal hér á landi. Sumarið 2021 fóru fram sex viðtöl við forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi og fimm við aðila innan stoðkerfis ferðaþjónustunnar á svæðinu. Markmiðið með þessum viðtölum var annars vegar að fá skilning á að­stæðum ferðaþjónustufyrirtækja á tímum Covid-19 og þeim þáttum sem skipt hafa máli við að takast á við afleiðingar faraldursins og hins vegar að meta hvaða hlutverk nýsköpun hefur gegnt í ástandinu. Horfa má á nýsköpun sem nýjungar innan fyrirtækis sem er ekki endilega í formi vörusköpunar. Niðurstöður benda til að úrræði stjórnvalda hafi komið sér afar vel fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi og haldið þeim á floti. Á þá vegu má segja að þau hafa fengið tækifæri til að stunda nýsköpun sem flest hafa aðlagað að nýjum markhóp: Íslendingum, sem hafa verið þeim verðmætir viðskiptavinir á þessum krefjandi tímum. Samráð við aðra í sömu stöðu og samstarf hafa einnig verið veigamiklir þættir í að gera fyrir­tækjunum kleift að sjá ljósið og takast á við krísuna.

Kristófer Orri Guðmundsson og Ragnhildur Pétursdóttir

Seigla í íslenskri ferðaþjónustu – Viðbrögð við krísu

COVID-19 faraldurinn og ferðatakmarkanir af þeim sökum hafa haft mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu og mörg fyrirtæki voru nánast án tekna á árinu 2020. Árið 2020 var 76% samdráttur í komu erlendra ferðamanna til Íslands, og er Ísland meðal þeirra landa í Evrópu sem hafa orðið fyrir mestum samdrætti ferða­þjónustunnar vegna heimsfaraldurs Covid-19. Ferð­aþjón­usta varð mikilvægasta útflutningsgrein Íslands eftir fjármála­hrunið 2008. Fjöldi ferðamanna á heimsvísu jókst úr hálfri milljón árið 2010 í 2,3 milljónir árið 2019 en árleg aukning var á bilinu 19-39%. Árið 2018 var Ísland í þriðja efsta sæti, á eftir Mexíkó og Spáni, allra OECD-ríkja varðandi hlutfall af ferðaþjónustu af heildarframleiðslu. Núverandi faraldur og afleiðingar ferðatak­markana hafa því bitnað hart á landinu efnahagslega. Þessi kynning mun styðjast við yfirstandandi rannsókn á að­lögun­arhæfni og seiglu íslenskra ferðaþjónustu. Farið verður yfir áhrif COVID-19 faraldursins á lítil- og meðalstór fyrirtæki í ferða­þjónustu, auk þess verður tæpt á helstu aðferðum þeirra við að takast á við faraldurinn. Gögnin munu samanstanda af fyrir­liggjandi opinberum gögnum, viðtölum við stjórnendur og að­standendur ferðaþjónustu sem og dagbókarfærslum ferða­þjónustuaðila.

Íris H. Halldórsdóttir

Lykilorð: ferðaþjónusta, COVID-19, seigla

Skemmtiskipaferðamennska á Ísafirði á óvissutímum

Ísafjörður er vinsæll áfangastaður skemmtiferðaskipa og hefur komum skipa fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Yfir sumar­mán­uðina leggjast stór skip við höfn og fer farþegafjöldi oft yfir íbúafjölda bæjarins. Árið 2019 komu 125 skemmti­ferðaskip til Ísafjarðar með um 97.700 farþega, en árið 2020 komu hins vegar engin skip sökum heimsfaraldurs Covid-19. Í þessu erindi verða kynntar fyrstu niðurstöður vettvangs­rannsóknar sem fram­kvæmd var á Ísafirði sumarið 2021. Markmið vettvangs­rann­sóknarinnar var að kanna starfs­hætti hagsmunaaðila og um­gjörð skemmtiskipaferða­mennsku á Ísafirði nú þegar Ísa­fjörður er farinn að taka á móti skipum að ný. Fylgst var með móttöku skipafarþega í landi og rætt við ferðaþjónustuaðila á staðnum. Fyrstu niðurstöður sýna að mikil samstaða er meðal hagsmuna­aðila þó svo að óvissa ríki um framtíð skemmti­skipa­ferða­mennskunnar á Ísafirði. Vettvangs­rannsóknin er liður í fjöl­þjóð­legu rannsóknarverkefni sem snýr að skemmti­skipa­ferða­mennsku á norðurslóðum og nefnist Sustain­able Arctic Cruise Communities: From practice to governance. Markmið rannsókn­arinnar er að kanna svæðis­bundna stjórnun og stýr­ingu á sex áfangastöðum skemmti­ferðaskipa og þróa verk­færakistu sem gæti mögulega nýst mót­tökusvæðum á norður­slóðum. Rann­sóknarsvæðið er Nor­egur, Rússland, Sval­barði, Ísland og Græn­land, og einblínt er á Ísafjörð fyrir íslenska hlut­ann.

Ása Marta Sveinsdóttir

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 13:00
  • End Date
    29/10, 2021 14:45
Höfundar erinda
Sérfræðingur
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Sérfræðingur
Rannsóknamiðstöð ferðamála
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 13:00
  • End Date
    29/10, 2021 14:45