Heilsutengdir hagir eldri Íslendinga – fréttir að norðan

Málstofustjóri: Sólveig Ása Árnadóttir 

Í málstofunni ræðum við ýmsar birtingarmyndir heilsu eldri Íslendinga. Öll erindin byggja á rannsóknarverkefnum sem tengjast Norðurlandi og í þeim er komið inn á samband heilsu á efri árum og búsetu í dreifbýli eða þéttbýli. Fjögur erindanna byggja á rannsóknargögnum frá 2018 þar sem eldri Norðlendingar, búsettir í dreifbýli og þéttbýli, tóku þátt og eitt erindanna byggir á reynslu eldri borgara sem komu víðar að.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Þættir sem hafa áhrif á heilsufar eldra fólks á Norðurlandi

Ein mesta áskorun við skipulagningu íslenskrar heilbrigðis­þjónustu í framtíðinni er hvernig gera má eldra fólki kleift að búa á eigin heimili sem lengst. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá upplýsingar um heilsutengda hagi eldri Norðlendinga sem búa heima. Rannsóknin var þversniðsrannsókn þar sem þátt­takendur voru valdir með slembuðu lagskiptu úrtaki úr Þjóðskrá. Úrtakið var lagskipt eftir aldri, kyni og búsetu. Rannsóknar­svæðið var Akureyri (n=105) og dreifbýlissvæði austan og vestan Eyjafjarðar (n=70). Fjórir starfsmenn rannsóknarinnar voru þjálfaðir til að safna gögnum í einu viðtali við hvern þátttakenda. Þátttakendur svöruðu 10 alþjóðlega viður­kenndum mælitækjum, líkamlegar mælingar voru gerðar og lyfjanotkun skráð niður eftir lyfjakorti. Flestum eða 63% fannst þeir hafa gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Meira óyndi (fleiri stigi á þunglyndiskvarða), hærri líkamsþyndarstuðull og það að hafa ekki nægar tekjur til að uppfylla eigin þarfir og not á fleiri lyfseðilsskyldum lyfjum hafði sjálfstæð neikvæð áhrif á mat einstaklings á eigin heilsu. Þátttakendur sem telja ráðstöfunar­tekjur sínar nægar taka fleiri lyfseðilsskyld lyf en þeir sem ekki telja sig hafa nægar ráðstöfunartekjur. Meira óyndi (fleiri stig á þunglyndiskvarða) tengdist aukinni vitrænni skerðingu, inntöku fleiri lyfseðilsskyldra lyfja og hærri aldri. Huga þarf að andlegri líðan eldri einstakinga sem eru með vitræna skerðingu, einnig að því að ráðstöfunartekjur eldra fólks geta haft áhrif á not á lyfjum hjá þeim.

Árún K. Sigurðardóttir

Lykilorð: eldra fólk, heilsufar, búseta

Samband D-vítamíns, þunglyndiseinkenna og búsetu hjá eldra fólki á Norðurlandi

Ein mesta áskorun sem við stöndum frammi fyrir á Norðurslóðum er að mæta þörfum eldri einstaklinga, bæði innan félagslega kerfisins og heilbrigðiskerfisins. Að meta geð­heilbrigðis­þarfir þessa hóps og mæta þeim á viðeigandi máta er stór hluti þessarar áskorunar. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða þunglyndiseinkenni eldra fólks á Norðurlandi og samband þeirra við D-vítamín hag þátttakenda. Þessi rannsókn er hluti af stærri rannsókn sem fjallar um heilsuhagi eldra fólks á Norðurlandi. Þetta tiltekna erindi einblínir á fjórar breytur og samband þeirra; skammdegisþunglyndi mælt með SPAQ listanum (seasonal pattern assessment questionnaire), þung­lyndis­einkenni mæld með GDS listanum (geriatric depression scale), og D-vítamín hag (mælt með D-vítamín hag) ásamt búsetu (þéttbýli vs dreifbýli). Úrtak var valið handahófskennt byggt á búsetu, aldri og kyni og gögnum safnað í viðtölum auglitit til auglits við þátttakendur.  Svarhlutfallið var 57.9% (N=175), og meðal aldur þátttakenda var 74.2 ár. Heilt yfir reyndust einkenni bæði þunglyndis og skammdegisþunglyndis frekar lág hjá báðum hópum, og ekki reyndist marktækur munur milli hópanna tveggja nema þegar kom að skammdegis­þunglyndis einkennum, en þar reyndist eldra fólk í dreifbýli með ívið meiri einkenni en hópurinn sem bjó í þéttbýli. Fyrirsjáanlega versnaði D-vítamínhagur beggja hópa umtalsvert þegar leið á veturinn.

Gísli Kort Kristófersson og Árún K. Sigurðardóttir

Lykilorð: eldri íslendingar, D vítamín hagur, þunglyndi

Er heilsulæsi eldra fólks á Norðurlandi tengt ójöfnuði?

Merki eru um heilsufarslegan ójöfnuð í Evrópu út frá menntun og tekjum, en hvað með aldur og hvar/hvernig fólk býr? Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna heilsulæsi eldri íbúa á Norðurlandi og hvort munur sé á heilsulæsi eftir t.d. tekjum, menntun, mati á eigin heilsu, búsetu og búsetuháttum. Um þversniðs- þýðisrannsókn er að ræða þar sem 303 þátttakendur, 65 ára og eldri í eigin búsetu á Norðurlandi voru valdir með slembuðu lagskiptu úrtaki. Gagna var aflað með HLS-EU-Q16-IS spurningalistanum sem metur heilsulæsi, ásamt bakgrunns­spurningum. Lýsandi tölfræði og línulegri aðhvarfs­greining var beitt við greiningu gagna. Alls tóku 175 þátt (57,9% svarhlutfall), þar af 70 sem bjuggu í dreifbýli. Meðalaldur var 74,2 (sf 6,3) ár, spönn 65-92 ár. Karlar voru 100 eða 57%. Tæplega 34% hafði lokið grunnskóla, en 12,7% háskólaprófi og 75,4% taldi sig hafa nægar tekjur til að uppfylla þarfir sínar. Niðurstöður benda til að um 35% þátttakenda sé með takmarkað heilsulæsi og eigi t.d. erfitt með að skilja og meta upplýsingar úr fjölmiðlum. Mark­tækur munur er á heilsulæsi eftir tekjum (t(132)= 2.03; p<0.05), hærri aldri (t(132)= 2.76; p<0.05) og menntun (F(2,130)=7.209, p<0.05), en ekki mati á eigin heilsu, búsetu eða búsetuháttum. Vísendingar eru um að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til þarfa eldra fólks á heilsutengdum upplýsingum og þjónustu.

Sonja Stelly Gústafsdóttir, Árún K. Sigurðardóttir, Sólveig Ása Árnadóttir, Lena Mårtensson

Lykilorð: heilsulæsi, eldri íbúar, búseta og búsetuhættir

Líkamleg færni eldri Norðlendinga og dagleg hreyfing þeirra á lífsleiðinni – hefur búseta í dreifbýli eða þéttbýli eitthvað að segja?

Markmið verkefnisins var að rannsaka hvernig líkamleg færni eldri einstaklinga, sem búa heima í dreifbýli eða þéttbýli, tengist „hreyfisögu“ þeirra á lífsleiðinni. Rannsóknin var megindleg og lýðgrunduð og þátttakendur voru 65-92 ára Norðlendingar (N=175, 43% konur, 40% úr dreifbýli). Gagna var aflað á árunum 2017-2018 með stöðluðum viðtölum og mælingum. Eftirfarandi breytur endurspegluðu líkamlega færni: Grunnhreyfifærni metin í sek á Tímamældu upp og gakk prófi (TUG), byltuhætta (TUG ≥12 sek), bylta á síðasta ári (≥1 bylta/ári) og endurteknar byltur (≥2 byltur/ári). Hreyfisaga byggði á sjálfmati á líkamlegri áreynslu á unglingsaldri, ung-fullorðinsaldri, miðjum aldri og á efri árum (≥65 ára). Miðað við þéttbýlisbúa, þá lýstu dreif­býlis­búar meiri hreyfingu á öllum aldursskeiðum, voru líklegri til að hafa dottið á síðasta ári og teljast í byltuhættu. Hjá þétt­býlis­búum voru sjálfstæð tengsl milli byltu á síðasta ári og minni hreyfingar á miðjum aldri. Hjá öllum þátttakendum voru sjálf­stæð tengsl milli endurtekinna bylta og meiri samanlagðrar hreyfingar á lífsleiðinni og hjá dreifbýlisbúum voru sjálfstæð tengsl á milli endurtekinna bylta á síðsta ári og að vera karl­maður. Hjá dreifbýlisbúum voru sjálfstæð tengsl á milli betri grunnhreyfifærni og meiri hreyfingar á efri árum. Byltuhætta tengdist ekki hreyfisögu, en hjá dreifbýlisbúum hafði hún sjálf­stæð tengsl við hærri aldur þátttakenda. Niðurstöðurnar nýtast við skipulag heilsueflandi þjónustu í dreifbýli og þéttbýli, með áherslu á líkamlega færni og byltuvarnir á efri árum.

Sólveig Ása Árnadóttir, Lára Einarsdóttir og Árún K. Sigurðardóttir

Lykilorð: öldrun, færni, hreyfing

Reynsla eldri kvenna sem annast maka með vitræna hnignun

Markmið rannsóknarinnar var að skoða reynslu eldri kvenna sem annast maka með vitræna hnignun. Aðferðin var eigindleg þar sem notað var vinnulag grundaðrar kenningar við uppbyggingu rannsóknar og greiningu gagna. Viðtöl voru tekin við 11 konur á aldrinum 70-92 ára, bæði á Íslandi og í Noregi. Viðtölin fóru fram á heimilum kvennanna, vorið 2018 í Noregi og haustið 2018 á Íslandi. Konurnar voru spurðar um fyrrverandi og núverandi reynslu sína af því að vera umönnunaraðilar. Niðurstöður sýndu að þrátt fyrir að konurnar hafi fengið heima­þjónustu til aðstoðar við umönnun eiginmanna sinna, þá þurftu þær stöðugt að vera á varðbergi og aðstoða þá við ýmsa praktíska þætti. Þær þurftu að vaka yfir þeim nótt eftir nótt, að endurtaka sömu samræðurnar, að takast á við ásakanir um ó­heiðarleika, að upplifa yfirgang og stundum ofskynjanir, ofbeldi og ótta. Konurnar þurftu meiri upplýsingar, meiri aðstoð og tíma frá umönnunarhlutkverkinu ásamt því að þurfa tilfinningalegan og sálrænan stuðning. Konurnar voru ekki meðhöndlaðar sem einstaklingar með eigin umönnunarþarfir og raddir þeirra heyrðust ekki. Byggja þarf upp persónumiðaða nálgun í öldrunarþjónustu við þá sem búa heima þar sem kjarni þjónustunnar snýst um hjón/pör en ekki bara einstaklinga. Þróa þarf kerfisbundna samvinnu milli heimaþjónustu og fjölskyldna svo hægt sé að mæta þörfum umönnunaraðila til jafns við þarfir sjúklinga á viðunandi og heildstæðan máta.

Olga Ásrún Stefánsdóttir, Mai Camilla Munkejord, Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir

Lykilorð: eldri konur, umönnun, vitræn hnignun

Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 15:00
  • End Date
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 656 8830 6150
Höfundar erinda
Dósent
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Annað / Other
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 15:00
  • End Date
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 656 8830 6150