Fjölmiðlun á krossgötum II

Málstofustjóri: Birgir Guðmundsson

Í málstofunni mun verða fjallað um stöðu frétta og blaðamennsku og fjölmiðlunar almennt á tímum þegar rekstrarforsendur hafa að verulegu leyti brostið. Ný tækni og nýjar tegundir miðla hafa með magvíslegum hætti skorað á hólm  grunnatriði faglegrar blaðamennsku og mun í málstofunni fjallað um sum þessara atriða út frá nýjum rannsóknarniðurstöðum á Íslandi og erlendis.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Fjölmiðlastyrkir – íslenska útgáfan

Fyrir skemmstu veittu stjórnvöld styrki til einkarekinna fjölmiðla samkvæmt nýlega samþykktum breytingum á lögum um fjölmiðla, en á fyrra ári fengu rekstraraðilar úthlutað sérstökum styrkjum vegna tekjutaps af völdum Covid-19. Í umræðu um málið innan þings og utan var ljóst að sitt sýndist hverjum um ágæti þessa. Sumum þótti ekki nóg að gert á meðan aðrir óttuðust að vegið væri að frjálsri fjölmiðlun. Í erindinu er gerð grein fyrir fjölmiðlastyrkjum í bráð og lengd, fyrirkomulagi þeirra, hvaða markmiði þeim er ætlað að ná og helstu röksemdum með og á móti fjárhagslegum ívilnunum stjórnvalda til einkarekinna fjölmiðla. Sýnt er fram á að fyrirkomulag beinna styrkveitinga til einkarekinna fjölmiðla hér á landi er afar frábrugðið því sem hefur viðgengist á Norðurlöndum og almennt í Evrópu og að aðkoma þess opinbera að þróun og uppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins hefur verið með öðrum hætti en víðast í nágrannalöndum okkar. Leiddar eru líkur að því að þessi sérstaða stafi af sérkennum íslensks fjölmiðlamarkaðar sem hefur ætíð einkennst af mikilli samþjöppun og ríkum hagsmunatengslum við atvinnulíf og stjórnmál.

Ragnar Karlsson

Lykilorð: fjölmiðlastyrkir, fjölmiðlar, Ísland

Viðhorf íslenskra blaða- og fréttamanna til streitu og álags á tímum heimsfaraldurs

Þær frumniðurstöður sem hér eru kynntar eru lítið brot af rannsókn á íslenskum blaða- og fréttamönnum sem framkvæmd var með netkönnun vorið 2021 en tilgangurinn var að skoða starfsumhverfi blaða- og fréttamanna. Þátttökuhlutfall var 50,5%. Rannsóknin er hluti af alþjóðlegri rannsókn á blaða- og fréttamönnum um allan heim, Worlds of Journalism Study, og tekur Ísland nú þátt í annað sinn. Markmið rannsóknarinnar var m.a. að kanna hvaða áhrif COVID-19 hefði haft á starfshlutfall blaða- og fréttamanna, og viðhorf þeirra til streitu og álags. Niðurstöður benda til að 67% blaða- og fréttamanna hér á landi vinni 50-59 klukkutíma á viku og að helmingur þeirra sinni starfinu heiman frá sér í 10-19 klukkutíma á viku. 70% unnu fulla vinnu á ótímabundnum ráðningarsamningi en 14% höfðu orðið fyrir breytingu á starfshlutfalli frá febrúar 2020. Þar af höfðu 63% verið í fullri vinnu áður. Hins vegar leiðir greining á kynjamuninum í ljós að konur eru hlutfallslega mun líklegri en karlar til að vera í hlutastarfi og hafa orðið fyrir breytingu á starfsaðstæðum sínum. Hlutfallslega fleiri konur sögðust einnig hafa upplifað streitu á síðustu sex mánuðum fyrir könnunina; þær höfðu líka frekar áhyggjur af líkamlegri og andlegri heilsu sinni, og að missa starf sitt á næstu 12 mánuðum. Einn af hverjum fjórum blaðamönnum telur að hann vilji ekki starfa í faginu eftir fimm ár.

Guðbjörg Hildur Kolbeins

Ógnir og óvissa í blaða- og fréttamennsku á Íslandi

Blaða- og fréttamenn og fréttamiðlar hér landi og um heim allan glíma við fordæmalausa og margþætta kreppu. Þessi kreppa er að mörgu leyti talin getað ógnað sjálfri tilvist blaða- og fréttamennskunnar sem samfélagslegri stofnun. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir nokkrum niðurstöðum úr íslenskum hluta alþjóðlegrar rannsóknar, the Worlds of Journalism Study, en markmið hennar er að kortleggja þær ógnir og óvissu sem blaða- og fréttamenn standa frammi fyrir og að öðlast betri skilning á því hvernig þeir bregðast við og laga sig að breytingum. Rannsóknin er lögð fyrir í yfir 100 löndum en þetta er í annað sinn sem Ísland tekur þátt í henni. Í erindinu verður áhersla lögð á starfsaðstæður og –öryggi íslenskra blaða og fréttamanna. Stuðst verður við niðurstöður úr spurningakönnun sem var send á alla starfandi blaða- og fréttamenn á Íslandi fyrr á árinu. Einnig verður byggt á niðurstöðum úr hálfstöðluðum viðtölum sem tekin voru við íslenska blaða- og fréttamenn á þessu ári, þar sem kafað var dýpra í ýmsa þætti sem spurt var um í spurningakönnuninni. Úrvinnsla gagnanna stendur yfir en í erindinu verður varpað ljósi á fyrstu niðurstöður úr rannsókninni er snúa að ógnum og óvissu í störfum blaða- og fréttamanna á Íslandi.

Jón Gunnar Ólafsson og Valgerður Jóhannsdóttir

Lykilorð: fréttamennska, starfsaðstæður, fréttamenning

Ekki benda á mig:  Sjónarmið blaðamanna um samfylgd fjölmiðla og stjórnmála

Samfylgd fjölmiðla og stjórnmálaafla eða hugmyndafræði (political parallelism) á Íslandi  á tímum markaðsmiðlunar hefur verið skoðaður fræðilega á umliðnum árum, einkum með því að rannsaka afstöðu og notkun stjórnmálamanna á einstökum miðlum og boðmiðlunarleiðum. Í ljós hefur komið að mikill meirihluti stjórnmálamanna og stór hluti almennings líka, telur hefðbundna fjölmiðla taka pólitíska afstöðu í fréttum sínum og stjórnmálamenn hafa ekki mikla tiltrú á fagmennsku eða óhæði blaðamanna. Hins vegar hefur til þessa skort upplýsingar um hvernig blaðamenn sjálfir líta á samfylgd fjölmiðla og stjórnmála eða hugmyndafræði og í þessu erindi verða kynntar fyrstu niðurstöður úr íslenskum hluta alþjóðlegu WJS könnunarinnar varðandi þetta atriði. Sú rannsókn var framkvæmd vorið 2021 og var netkönnun sem náði til allra virkra blaða- og fréttamanna landsins og spurningar byggðu í aðalatriðum á alþjóðlegri forskrift verkefnisins. Félagsvísindastofnun sá um framkvæmd könnunarinnar.  Spurningar og niðurstöður eru sambærilegar við kannanir sem gerðar hafa verið meðal almennings og stjórnmálamanna og þær því settar í slíkt samhengi til samanburðar.  Frumniðurstöður benda til þess að sjónarmið blaðamanna rími vel við sjónvarmið stjórnmálamanna, en athygli vekur að blaðamenn á flestum miðlum kannast miklu síður við að samfylgd sé með stjórnmálastefnum eða hagsmunum á þeim miðli sem þeir vinna á sé hjá öðrum miðlum.

Birgir Guðmundsson

Lykilorð: samfylgd fjölmiðla og stjórnmála, pólitísk boðmiðlun, blaðamennska

Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45
Höfundar erinda
Lektor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Verkefnisstjóri
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Nýdoktor / Post Doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Event Details
  • Start Date
    29/10, 2021 11:00
  • End Date
    29/10, 2021 12:45