Bein leið – næsta stop, Hvíta húfan!

Málstofustjóri: Soffía Valdimarsdóttir

Í málstofunni Bein leið – næsta stopp, Hvíta húfan! verður sagt frá nýlegum rannsóknum í náms- og starfsráðgjöf. Þar verður fjallað um hvernig bóknámshalli í íslensku skólakerfi og ríkjandi neikvæð viðhorf til starfsgreina valda því í raun að mörg ungmenni hunsa áhuga sinn og velja hefðbundið bóknám við lok grunnskóla. Einnig verður sagt frá Tækniskólavali, valáfanga í grunnskóla, sem hefur vegið upp á móti ómarkvissri fræðslu um iðn- og starfsnám. Þá skoðum við hvað starfandi náms- og starfsráðgjafar telja brýnast að gera á sviði náms- og starfsfræðslu til mótvægis við ríkjandi bóknámshalla. Að lokum verður sagt frá reynslu starfandi handverksmanna af því að hafa valið sér starf sem nýtur að sögn nýtur ekki virðingar í nútímasamfélagi en veitir lífsfyllingu og hamingju.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Tækniskólaval í grunnskóla – Mikilvægt að fá að prófa!

Í grunnskólanum er einkum horft til bóklegrar hæfni nemandans fremur en almennrar eða verklegrar hæfni. Staða bóknáms og iðn- eða starfsnáms er ólík í samfélaginu. Tækniskólaval hefur víða verið valfag í 10. bekk. Þar kynnast nemendur grunnþáttum iðn- og starfsnáms með beinum hætti með því að vinna verkefni, kynnast inntaki námsins og nota tilheyrandi tækjabúnað. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í reynslu og upplifun nemenda í Tækniskóla Íslands af Tækniskólavali og upplifun þeirra af náms- og starfsfræðslu í grunnskólanum sem snýr að iðn- og starfsnámi. Þá var einnig skoðuð reynsla nemenda af því að hefja nám í Tækniskólanum.

Rannsóknin var gerð með eigindlegri aðferð og byggir á viðtölum við átta nemendur úr Tækniskólanum og við þrjá starfsmenn til að fá innsýn í tilgang og skipulag Tækniskólavalsins. Helstu niðurstöður sýndu að upplifun nemenda af Tækniskólavalinu var jákvæð. Þar fengu nemendur fræðslu um iðn- og starfsnám sem þau fengu ekki í grunnskólanum þar sem fræðslan virðist vera lítil, yfirborðskennd og ómarkviss. Öllum viðmælendum úr hópi nemenda fannst mikilvægt að fá að prófa hlutina sjálfir til að geta valið sér nám á upplýstan hátt og flestir töldu umræðu um bóknám stýrandi í grunnskólanum. Niðurstöður benda til að viðhorf til iðn- og starfsnáms sé almennt neikvætt, sérstaklega hjá ungu fólki. Viðmælendur úr hópi nemenda höfðu allir jákvæða upplifun af námi í Tækniskólanum.

Ásta Gunnarsdóttir og Soffía Valdimarsdóttir

Lykilorð: tækniskólaval í grunnskóla, náms- og starfsfræðsla í iðn- og starfsnámi, viðhorf til iðn- og starfsnáms

Er glatað að vera pípari? Reynsla pípulagningameistara og nema í faginu

Iðnnám og annað starfstengt nám hefur í gegnum tíðina verið litið hornauga. Að sama skapi hafa nemendur sem stunda nám af slíkum toga verið flokkaðir sem annars flokks nemendur. Meginmarkmið rannsóknarinnar sem hér er fjallað um var að fá innsýn inn í upplifun og reynslu pípulagninganema og pípulagningamanna af námi og starfi sem og upplifun þeirra á viðhorfum samfélagsins til starfsgreinarinnar. Rannsóknin var unnin með eigindlegum aðferðum og byggðist á viðtölum við átta einstaklinga, fjóra pípulagninganema, þrjá starfandi pípulagningamenn og einn séfræðing á sviði iðn- og starfsnáms. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að viðmælendur upplifðu eigin reynslu af námi og starfi sem jákvæða en töldu námsval ungmenna almennt litað af viðhorfum samfélagsins fremur en áhuga. Að auki álitu þeir skólakerfið mjög bóknámsmiðað. Viðmælendurnir upplifðu oft neikvæð viðhorf fólks til námsins og starfsins, ástæðuna töldu þeir vera fáfræði um eðli námsins og starfs pípulagningamanna. Kynjahalli er umtalsverður, þó að fleiri konur nemi og starfi við fagið en áður. Kvenkyns viðmælendur upplifðu oft á tíðum mikla undrun fólks yfir því að þær hefðu valið sér slíkt starf sem þykir frekar karllægt. Viðmælendur voru sammála um að aukin fræðsla um iðn- og starfsnám sem hæfist fyrr í skólakerfinu gæti að einhverju leyti breytt þessum viðhorfum.

Fríða Guðlaugsdóttir og Soffía Valdimarsdóttir

„Það er svo mikill fókus í okkar námi á bóknám“

Á undanförnum árum hefur ákall um eflingu náms- og starfs­ráðgjafar hér á landi meðal annars snúist um aðgerðir gegn brotthvarfi og til að efla starfsnám. Mun færri nemendur velja starfsnámsbrautir framhaldsskólanna en bóknámsbrautir að loknum grunnskóla, og í alþjóðlegum samanburði er hlutfall ungs fólks í starfsnámi á Íslandi lágt. Það virðist því skjóta skökku við að rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að meirihluta nem­enda líkar betur við verklegar greinar en bóklegar í grunnskóla. Í þessari rannsókn var markmiðið annarsvegar að varpa ljósi á þær áskoranir sem náms -og starfsráðgjafar í  grunnskólum landsins standa frammi fyrir með áherslu á ráðgjöf um starfsnám og hinsvegar var kannað hver sé sýn þeirra á að nemendur velji síður starfsnám en bóknám við lok grunnskólans. Tekin voru hálfstöðluð opin viðtöl við sjö náms- og starfsráðgjafa sem starfa í grunnskólum. Helstu niðurstöður sýndu að þeir telja sig ekki skorta þekkingu á starfsnámi né vera hallir undir bóknám en grunnskólinn er að þeirra mati mjög bóknámsmiðaður. Allir telja að tengsl við atvinnulífið ættu að vera meiri og að stefna stjórnvalda þurfi að vera skýrari hvað varðar náms- og starfs­ráðgjöf í grunnskólum, náms- og starfsfræðslu og að skilgreinda námskrá vanti. Þeir telja að val á námi að loknum grunnskóla snúist fyrst og fremst um val á skóla fremur en námsbraut og að nemendur séu óákveðnir varðandi val á námi við lok grunn­skólans.

Sandra D. Gunnarsdóttir, Kristjana Stella Blöndal og Sif Einarsdóttir

Lykilorð: náms- og starfsráðgjöf, starfsnám, val á námi

Val á námsleið þvert á áhuga – erum við að kynna allar námsbrautir í framhaldsskóla jafnt?

Markmið þessarar rannsóknar var að fá innsýn í reynslu nemenda þegar þau standa frammi fyrir námsvali að loknum grunnskóla og þá sérstaklega hvað hefur áhrif á að nemandi velji námsleið þvert á áhuga sinn. Rannsóknin var byggð á viðtölum við sjö einstaklinga sem voru á aldrinum 18–26 ára og höfðu byrjað á bóknámsbraut en skipt yfir í starfsnám. Helstu niður­stöður rannsóknarinnar gefa til kynna að ungmennin völdu fyrst hvaða framhaldsskóla þau vildu fara í áður en þau ákváðu hvaða námsbraut þau ætluðu að velja. Þau litu öll á framhalds­skólann sem sjálfstætt framhald af grunnskóla og tóku ekki upplýsta ákvörðun um hvað þau ætluðu að læra heldur fylgdu vinum sínum og óskum foreldra við val á námi. Ungmennin virðast hafa vannýtt að afla sér þekkingar á námsleiðum en einnig var kynning á starfsnámi lítil sem engin. Með öflugri náms- og starfsfræðslu er hægt að fyrirbyggja að nemendur taki óupp­lýsta ákvörðun um námsval í framtíðinni. Með því að skoða hvað það er sem hefur áhrif á val ungmennanna er hægt að skipu­leggja kynningar á öllu námi og störfum betur og nýta þessa fræðslu í átt að frekari könnun hjá ungmennunum.

Guðbjörg Birna Jónsdóttir, Sif Einarsdóttir og Kristjana Stella Blöndal

Lykilorð: námsval, starfsnám, áhugi

„Hvernig dettur þér í hug að reyna að selja föndur?“

Lífseig neikvæð viðhorf til handverks og starfa í iðn- og verk­greinum valda að ósekju miklum bóknámshalla í íslensku skólakerfi. Þess sér bæði stað í námsvali ungmenna og einnig í því að grunnskólar rækja ekki námskrárvarinn rétt nemanda til menntunar í list- og verkgreinum. Í þessu erindi rýni ég í gögn sem ég hef safnað á árunum 2019-2020 meðal starfandi hand­verksfólks hringinn í kringum landið. Markmiðið er að kanna upplifun þátttakenda á viðhorfi fólks til starfs síns í handverki. Í því skyni vann ég eftirágreiningu með aðferðum grundaðrar kenningar á nótum úr þátttökuathugunum á vinnustofum og viðtölum við sjö rómaða handverksmenn. Eins og við mátti búast í ljósi fyrri rannsókna voru helstu niðurstöður þær að viðmæl­endur upplifðu oft neikvæð viðhorf samfélagsins og jafnvel sinna nánustu. Þátttakendur greindu frá því að fólk taldi starfs­valið óraunhæft, það hlyti að vera tímabundið og tilkomið í einskonar uppgjöf. Neikvætt viðhorf birtist viðmælendum einnig í vanvirðingu eða vanmati almennings og stjórnvalda á störfum sínum og framlagi. Þátttakendur segjast þó einnig upplifa að með þrotlausri vinnu, sérhæfingu og raunhæfri verðlagning breytist viðhorf fólks til starfa þeirra og afurða.

Soffía Valdimars

Lykilorð: handverk, viðhorf, bóknámshalli

Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 09:00
  • End Date
    30/10, 2020 10:45
  • Zoom meeting id: 646 9004 7743
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Annað / Other
Dósent / Senior Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Annað / Other
MA/MS nemi / MA/MSc student
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    30/10, 2020 09:00
  • End Date
    30/10, 2020 10:45
  • Zoom meeting id: 646 9004 7743