Ávarp: Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs

Aðalfyrirlesari Þjóðarspegilsins 2020: Freyja Haraldsóttir
Freyja Haraldsdóttir er doktorsnemi í menntunarfræði við Háskóla Íslands og með nám í kynjafræði og þroskaþjálfafræði að baki. Hún starfar jafnframt sem réttindagæslumaður fatlaðs fólks og er talskona Tabú, feminískrar fötlunarhreyfingar. Freyja hefur starfað við rannsóknir síðustu árin en meistararannsókn hennar beindist að því að skoða sálrænar afleiðingar af misrétti fyrir fatlaðar konur og doktorsrannsókn hennar snýr að reynslu fatlaðra kvenna af móðurhlutverkinu á tímum nýfrjálshyggju með áherslu á samtvinnun fötlunar, kyngervis og stéttar.
Freyja Haraldsdóttir er aðalfyrirlesari Þjóðarspegilsins í ár og verður með erindi í málstofunni Lífsgæði og þátttaka fatlaðra barna. Þar mun hún fjalla um rannsóknina sem hún hefur tekið þátt í vinnu við síðustu árin,en það er umbótarannsóknin Lífsgæði og þátttaka fatlaðra barna og ungmenna (LIFE-DCY).
Í rannsókninni hefur Freyja beint sjónum sínum að reynslu og upplifun ungmenna í gegnum rýnihópaviðtöl og mun hún í fyrirlestri sínum varpa ljósi á hvernig fötluð ungmenni skilgreindu og upplifðu lífsgæði og hvernig þau töldu að best sé að tryggja fötluðum börnum og ungmennum möguleika til fullrar þátttöku í samfélaginu.
„Það hefur verið dýrmætt og mikilvægt ræða um hugtökin lífsgæði og þátttöku við ungt fatlað fólk í gegnum LIFE-DCY rannsóknina. Það er athyglisvert að sjá að á meðan ungt fatlað fólk skilgreinir hefðbundna þætti sem við teljum flest til lífsgæða mikilvæg, eins og húsnæði, fæði, klæði og góða heilsu, að þá eru þau mun uppteknari af lífsgæðum sem snúa að frelsi frá ofbeldi og fordómum, jöfnum tækifærum í samfélaginu, aðgengi í sínu víðtækustu mynd og djúpstæðum og sterkum tengslum við fólk.
Í þeirra augum eru slík lífsgæði oft forsenda fyrir þátttöku í samfélaginu, þeirri tilfinningu að þau tilheyri og að þau séu mikils metin. Það sem kemur einnig sterkt fram er að þau eru mjög þreytt á því að fólk áætli að líf þeirra sé verra en ófatlaðs fólks og að framtíðarsýn þeirra geti ekki verið björt. Ungt fatlað fólk er vissulega fjölbreyttur hópur og litast lífsreynsla þeirra af fleiri þáttum en fötlun, s.s. kyni, kynhneigð, kynþætti og fjölskyldubaklandi. Það er þó sameiginleg sýn þeirra að tækifærin felast fyrst og fremst í því að uppræta fötlunarfordóma og tryggja þeim sjálfstæði og frelsi svo þau geti notið lífsgæða sinna til fulls og tekið þátt í samfélaginu á öllum sviðum. Þekking þeirra og lífsreynsla er afar verðmæt og algjört lykilatriði að raddir þeirra séu leiðandi í því að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks á Íslandi og hrista upp í ófötluðum heimi.“
Málstofur 2020
Allar málstofur í stafrófsröð. Smelltu á málstofu til að lesa ágrip erinda.
Viltu frekar lesa ágripin á prenti? Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan.