Stuðningur við nemendur með námsörðugleika

Málstofustjóri: Sigrún Harðardóttir
Reynsla kennara af því að styðja við nemendur með námsörðugleika

Í erindinu verða kynntar niðurstöður spurningalistakönnunar sem send var til grunnskólakennara með það að markmiði að kanna reynslu þeirra af því að veita nemendum með náms­örðugleika stuðning. Alls var könnunin send á 1444 starfsmenn grunnskóla og var svarhlutfallið 45%. Niðurstöður sýna að þeir sem unnu í skólum þar sem samkennsla er milli árganga voru líklegri til að telja að þeim gengi vel að aðlaga námið að nemendum en þeir sem störfuðu í skólum þar sem ekki var samkennsla. Þá kom fram að kennarar upplifa mikið álag í starfi sökum fjölbreyttra þarfa nemenda sem hafði áhrif á líðan þeirra og starfsánægju. Að mati umsjónarkennara og kennara sem starfa á yngsta og miðstigi þyrfti meiri tíma til að kenna og sinna börnum með sérþarfir sem gæti dregið úr starfstengdu álagi. Að mati kennara skortir fleiri fagstéttir innan skólans sem væru til staðar alla daga þeim til stuðnings, að eftirfylgd væri meiri í málum barna í kjölfar greininga og að það væri frekari þjálfun í kennsluaðferðum sem henta börnum með námserfiðleika. Af niðurstöðunum má draga þá ályktun að starfsfólk innan grunn­skóla þurfi faglega handleiðslu og ráðgjöf í starfi sem gæti  stuðlað að meiri starfsánægju þeirra og jafnframt aukinnar velferðar nemenda.

Ingibjörg Karlsdóttir

Upplifun nemenda af stuðningi kennara

Stefna um skóla án aðgreiningar hefur mætt margvíslegum áskorunum þegar að því kemur að styðja fjölbreyttan hóp nemenda til árangurs í námi, þátttöku og virkni í skólasamfélagi. Niðurstöður rannsókna benda til þess að stuðningur sem kennari veitir og góð tengsl við nemendur hafi áhrif á velferð, námsárangur og félagslegan þroska þeirra. Markmiðið hér er að skoða upplifun nemenda með námsörðugleika í grunnskólum á Íslandi af stuðningi kennara. Gögnin byggja á eigindlegum viðtölum við nemendur í grunnskólum sem höfðu verið greindir með námsörðugleika. Tekin voru sjö hálfstöðluð viðtöl við 14-16 ára nemendur og sex rýnihópaviðtöl við 22 nemendur á aldrinum 10-14 ára. Fyrstu niðurstöður benda til þess að upp­lifun og reynsla nemenda af stuðningi frá kennurum sé afar misjöfn. Yngir nemendur upplifi jákvæðari stuðning frá kennara en eldri nemendur. Það sem helst komi í veg fyrir góð tengsl og stuðning sé kennsluaðferðir og fjöldi nemenda sem þarfnast aðstoðar.

Mikilvægt er að skoða tengsl nemenda og kennara í eldri bekkjum grunnskóla, skipulag kennslurýmis og framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar til þess að hægt sé að mæta ólíkum þörfum nemenda.

Sigrún Harðardóttir

„Það mætti vera meiri samfella“: Reynsla starfsfólks í sérfræðiþjónustu

Skóli án aðgreiningar er opinber skólastefna á Íslandi. Sam­kvæmt lögum ber því sveitarfélögum að tryggja sérfræðiaðstoð vegna barna sem þarfnast sérstaks stuðnings í skóla. Meðal þeirra sem sinna sérfræðiþjónustu eru starfsfólk skólaskrifstofa­/­þjónustumiðstöðva en líka starfsfólk heilbrigðisþjónustu, félags­­þjónustu, barnaverndar og svo starfsfólk sérhæfðari  stofnana. Ein forsenda þess að vel takist til með framkvæmd skóla án aðgreiningar er góð samvinna skóla, mismunandi sérfræðinga og svo foreldra barna. Hér verður gerð grein fyrir fyrstu niðurstöðum lítillar (e. small scale) eigindlegrar  rannsóknar sem hefur það markmið að kanna reynslu og viðhorf sérfræðinga af samstarfi við skóla, foreldra og aðrar sérfræði­stofnanir. Tekin voru hálfopin viðtöl við sjö aðila sem starfa á mismunandi stofnunum sem greina, veita ráðgjöf og stuðning vegna barna með raskanir á einhverfu­rófi og önnur skyld frávik/sérþarfir. Viðtölin voru greind með þema­greiningu og stuðst var við vistfræðilega kenningu Bronfenbrenner við greininguna. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að samræming milli hinna ýmsu stofnana sé misgóð enda er þeim stjórnað af mismunandi aðilum. Stofnanirnar eru undir­fjármagnaðar sem leiðir til verulegs álags á starfsfólk og langra biðlista. Samvinna við skólana er á heildina litið góð og að mati viðmælenda leggja kennarar sig fram við að mæta þörfum barnanna þrátt fyrir mikið álag í starfi, en þó er þörf á að valdefla kennara og skóla frekar.

Jónína Sæmundsdóttir

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 11:00
  • End Date
    01/11, 2019 12:45
Höfundar erinda
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 11:00
  • End Date
    01/11, 2019 12:45