Stjórnun,  vinnuumhverfið og vinnutengd líðan 2

Málstofustjóri: Margrét Einarsdóttir

Hér er um að ræða seinni málstofu af tveimur um stjórnun, vinnuumhverfið og vinnutengda líðan.

Ofbeldi og hótanir á vinnustað

Ein af lykiláskorunum sem stjórnendur vinnustaða standa frammi fyrir í dag er að taka á óæskilegri hegðun á vinnustað eins og ofbeldi og hótunum. Þótt tilvist líkamlegs ofbeldis á vinnu­stað hafi lengi vel verið viðurkennd þá er tiltölulega stutt síðan að andlegt ofbeldi á vinnustað náði almennri athygli og hefur verið viðurkennt sem vandamál á vinnustöðum. Í þessu erindi verður fjallað um niðurstöður megindlegarar rannsóknar á ofbeldi og hótunum á vinnustað meðal starfsmanna 17 íslenskra sveitarfélaga. Rannsóknin byggir á rafrænni spurninga­listakönnun sem lögð var fyrir alla starfsmenn sveitarfélaganna sem voru í 50% stöðugildi eða hærra haustið 2015. Beiðni um þátttöku í rannsókninni var send á netföng 8.942 starfsmanna og eftir tvær ítrekanir höfðu 5.458 þeirra svarað spurninga­listanum (svarhlutfall 61%). Mikill meirihluti þátttakenda voru konur eða 81,7% enda er mikið af störfum innan sveitar­félaganna svokölluð kvennastörf. Niðurstöðurnar sýna að tölu­verður hluti starfsmanna hefur orðið fyrir ofbeldi á vinnustað, bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi, af hálfu vinnufélaga, stjórnenda og þjónustuþega eða aðstandenda þeirra. Þar sem ofbeldi á vinnustað hefur neikvæðar afleiðingar fyrir þolendur sem og vinnustaðinn sjálfan er mikilvægt að stjórnendur og þeir sem bera ábyrgð á heilsu og vellíðan starfsfólksins skoði hvaða þættir það eru í vinnuumhverfinu sem gera það að verkum að andlegt og líkamlegt ofbeldi líðist á vinnustaðnum og geri úrbætur þar á.

Hjördís Sigursteinsdóttir

Vinnutengd heilsa 13-19 ára íslenskra ungmenna: Munur eftir kyni?

Vinna bitnar á ólíkan hátt á heilsu fullorðinna karla og kvenna. Karlar lenda frekar í vinnuslysi en konur þjást frekar af vinnutengdum stoðkerfisverkjum. Hingað til hefur kynjamunur á vinnutengdri heilsu ungmenna lítt verið skoðaður. Markmið rannsókninnar er að skoða hvort munur sé á milli kynja annars vegar hvað varðar umfang vinnuslysa ungmenna og hins vegar hvað varðar tengsl vinnu ungmenna með skóla við stoð­kerfis­verki. Í febrúar – apríl 2018 var spurningakönnun lögð fyrir 2800 13-19 ára ungmenni sem valin voru tilviljunarkennt úr Þjóðskrá. Svarhlutfall var 48,6%. Umfang vinnuslysa var mælt á fjórgildum kvarða (ekki slys/slys olli ekki fjarveru/<viku fjar­vera/≥viku fjarvera), umfang verkja í vöðvðum og liðum/verkja í hálsi og herðum/verkja í baki/vöðvabólgu á tvíeindum kvarða (oft eða stundum/sjaldan eða aldrei) og umfang vinnu með skóla á þrígildum kvarða (vinnur ekki/vinnur hóflega/vinnur mikið með skóla). Kí-kvaðrat próf var notað til að mæla marktækni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna engan mun eftir kyni hvað varðar umfang vinnslysa. Hins vegar mældist munur eftir kyni hvað varðar stoðkerfiseinkennin. Stúlkur sem vinna mikið með skóla eru líklegri til að finna fyrir öllum tegundum stoðkerfis­verkja en þær sem vinna ekki. Það á hins vegar eingöngu við hvað varðar bakverki hjá strákum. Sú álykun er dregin að vinna bitni harðar á heilsu stúlkna en pilta og að hafa þurfi kynja­muninn í huga við vinnuvernd.

Margrét Einarsdóttir

Viðhorf atvinnurekenda til starfsfólks með skerta starfsgetu

Hér á landi hefur öryrkjum fjölgað jafnt. Það er mikilvægt að einstaklingar með skerta starfsgetu eigi leið að vinnu­markað­num til að stemma stigu við fjölgun öryrkja. Viðhorf stjórnenda í fyrirtækjum og stofnunum er einn af lykilþáttum til að auka atvinnuþátttöku þessa hóps. Til að kanna viðhorf stjórn­enda hér á landi til að ráða og hafa í starfsliði sínu einstak­linga með skerta starfsgetu voru tekin viðtöl við stjórnendur í 18 fyrirtækjum. Fyrstu niðurstöður benda til að flestir stjórnendur eru jákvæðir fyrir að skapa rými fyrir starfsfólk með skerta starfsgetu svo framarlega sem þeir geti lagt af mörkum til starfseminnar. Meiri jákvæðni er fyrir hendi gagnvart starfsfólki sem veikist í starfi en að ráða starfsfólk sem hefur verið að glíma við veikindi.  Helstu hindranir sem stjórnendur benda á varðandi ráðningu einstak­linga með skerta starfsgetu er að erfitt getur verið að skapa starfsaðstæður sem mæta þörfum þessa hóps, þeir hafa efa­semdir um að einstaklingar standist kröfur og væntingar fyrir­tækisins/stofnunarinnar og að kostnaður við að hafa einstakling sem ekki getur skilað fullri vinnu geti haft neikvæð áhrif á rekstur eða hagnað fyrir­tækisins/stofnunarinnar.

Í erindinu verður fjallað um þessar fyrstu niðurstöður og þær ræddar í ljósi alþjóðlegra rannsókna.

Ásta Snorradóttir

Starfsendurhæfing innflytjenda: ögranir, árangur og aðgengi

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig einstaklingum sem tala litla eða enga íslensku reiðir af í starfsendurhæfingu, hvernig aðgengi þeirra er að henni, hvernig þeim gagnast hún og hvort það hái þeim í endurhæfingunni að tala litla eða enga íslensku. Jafnframt hvernig fagfólk, sem kemur að starfsendur­hæfingunni, upplifir árangur vinnu sinnar þegar þessir einstak­lingar eiga í hlut.

Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við einstaklinga sem voru eða höfðu verið í starfsendurhæfingu og töluðu litla eða enga íslensku, til að fá fram upplifun þeirra af þjónustunni og hvaða áhrif tungumálaþekking þeirra hafði á starfsendurhæfinguna. Einnig voru tekin eigindleg viðtöl við fagfólk sem þjónustar fólk í starfsendurhæfingu til að kanna hvernig tekið er á móti þessum einstaklingum, hvernig lítil eða engin íslenskukunnátta hafi áhrif á þjónustuna og hvaða úrræði eru í boði til að mæta þörfum þess hóps þannig að starfsendurhæfing geti átt sér stað.

Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu vísbendingar um að þeir sem ekki tala íslensku eða ensku standi frammi fyrir ýmsum hindrun­um áður en formleg starfsendurhæfing hefst, á meðan á henni stendur og að henni lokinni. Einnig voru vísbendingar um að fagfólk nái ekki þeim árangri sem það óskar með þjónustu sinni sökum menningar- og tungumálahindrana.

Gerður Gestsdóttir

Vinnustreita og kulnun meðal íslenskra félagsráðgjafa

Fjöldi erlendra rannsókna sýna að félagsráðgjafar eru í hættu á að þróa vinnustreitu og kulnun í starfi. Á Íslandi er skortur á rannsóknum á þessu sviði. Þær fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar benda til mikillar vinnustreitu og kulnunar hjá stéttinni.  Þetta er m.a. rakið til eðli starfsins þar sem átök geta verið á milli fagmennsku og krafna í starfi, en starfið einkennist oft af miklum málafjölda, fáu starfsfólki, miklum kröfum um skilvirkni, flóknum tengslum við skjólstæðinga og takmörkuðu fjármagni til þjónustu. Í þessu erindi er vinnustreita og kulnun meðal íslenskra félagsráðgjafa skoðuð.  Markmið rannsóknarinnar er að greina áhættuþætti og ástæður vinnustreitu og kulnunar og hvað einkenni þá hópa félagsráðgjafa sem eru í hættu á að kulna í starfi. Gagna var aflað með nafnlausri netkönnun sem send var til allra félaga í Félagsráðgjafafélagi Íslands í mars og apríl árið 2019. Alls svöruðu 271 félagsráðgjafi könnunni, svarhlutfall var 56%. Meðal annars var matstækið „The self-report instrument (s-ED)“ notað sem byggir á greiningarviðmiðum fyrir streitu­tengda kulnun/síþreytu (stress-related exhaustion disorder).

Niðurstöður benda til að 85% félagsráðgjafa upplifa mikið álag í starfi og 67% finna til mikillar þreytu í lok vinnudags. Um 40% hópsins er með einkenni kulnunar. Horfa þarf til þátta í vinnuumhverfi félagsráðgjafa til að takmarka álag þeirra í starfi.

 Steinunn Hrafnsdóttir og Ásta Snorradóttir

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 15:00
  • End Date
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 15:00
  • End Date
    01/11, 2019 16:45