Femínískar fötlunarrannsóknir

Málstofustjóri: Sigríður Jónsdóttir

Málstofan verður táknmálstúlkuð.

Áhrif öráreitni á kynjasálfsmynd (e. sexual identity) og tjáningu kynverundar

Erindið byggir á MA rannsókn um fötlun, kynlíf og kynverund. Markmið rannsóknarinnar er að skoða upplifun fatlaðs fólks af því að vera kynverur og aðgengi fatlaðs fólks að tjáningu kynverundar með því að beita kenningum um öráeiti og ableisma. Hugtakið ableism hefur í vaxandi mæli verið nýtt innan fötlunarfræða til að útskýra og fjalla um undirskipun fatlaðs fólks innan samfélagsins. Samhliða þessari þróun hefur hugtakið öráreitni (e. microaggression) rutt sér rúms innan ólíkra fræðasviða í tengslum við mismunun og ofbeldi gagnvart jaðarhópum. Öráreitni er dulin og lúmsk mismunun eða for­dómar sem beinast einna helst að jaðarsettum hópum. Með öráreitni er átt við atvik, í samneyti fólks, sem ein og sér virðast smávægileg (e. micro) en þegar fólk í jaðarsettri stöðu upplifir slík atvik jafnvel oft á dag verða áhrif og afleiðingar þeirra mikil.

Um er að ræða tilviksrannsókn og er gögnum aflað í gegnum einstaklings- og rýnihópaviðtöl og dagbókarskrif þátttakenda. Rannsókninni er ætlað að skoða upplifun fatlaðs fólks af líkömum sínum sem kynferðislegum og upplifun af öráreitni sem beinist að kynverund. Einnig eru áhrif öráreitni á tjáningu kynverundar skoðuð og upplifun fatlaðs fólks af skömm í tengslum við tjáningu kynverundar. Í rannsókninni er notast við hrif-kenningar sem og kenningar um skömm og nautn til að rýna í samfélagslegt samhengi kynverundar.

Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir

Gleðispillar og vandræðagemlingar: Hrif, móðurhlutverkið og fötlun

Saga þvingaðra ófrjósemisaðgerða og fóstureyðinga gegn fötluðum konum er löng. Áherslur löggjafar, stefnumótunar og framkvæmd í ættleiðingar- og fósturmálum bera þess glöggt merki að fötlun er álitin áhættuþáttur fyrir líf barna og miða gjarnan að því að koma í veg fyrir að fatlað fólk gerist foreldrar. Fræðikonan Sara Ahmed hefur skrifað mikið um hrif kenningar, m.a. um það sem hún nefnir feminíska gleðispilla (e. feminist killjoys), hamingjuhandritið (e. happiness script) og vandræða­gemlinga (e. troublemakers). Í erindinu verður fjallað um hluta af doktorsverkefni Freyju Haraldsdóttur, Fötlun og móður­hlut­verkið á tímum nýfrjálshyggju: samtvinnun fötlunar, kyn­gervis og stéttar, þar sem kenningar Söru Ahmed eru notaðar til að varpa ljósi á móðurhlutverkið og fötlun. Rýnt verður í opinber skrif fatlaðra mæðra á Íslandi og þau greind með hliðsjón af hrif kenningum Söru Ahmed. Einnig verður fjallað um fyrstu niður­stöður doktorsverkefnisins sem byggja á eigindlegum rýni­hópa- og einstaklingsviðtölum við fatlaðar mæður en þær gefa til kynna að fatlaðar konur fari á svig við hamingju­handritið með því að vera mæður eða vilja verða mæður. Fatlaðar mæður eru jafnframt taldar spilla gleði annarra, t.d. maka og barna, með því að gerast mæður, og eru álitnar vera til vand­ræða í ólíkum kerfum samfélagsins, t.d. heilbrigðis- og barna­verndarkerfinu, ef þær taka móðurhlutverkinu fagnandi og sjá fötlun sína sem styrkleika í uppeldi barna sinna.

Freyja Haraldsdóttir

Tíðni ofbeldis gegn fötluðum konum: Ný íslensk rannsókn

Á síðastliðnum árum hafa íslenskar eigindlegar rannsóknir fjallað um eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og ólíkar birtingar­myndir þess. Niðurstöðurnar hafa brugðið ljósi á það hvernig ofbeldið sem fatlaðar konur verða fyrir tengist náið jaðarsettri félagslegri stöðu þeirra, þjónustunni sem þær nota og aðstæðunum sem þeim eru skapaðar. Samkvæmt erlendum rannsóknum eru fatlaðar konur mun líklegri til að verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni en aðrar konur en þar til nýlega var tíðni slíks ofbeldis ekki þekkt á Íslandi. Í erindinu verður fjallað um nýjar megindlegar niðurstöður um tíðni ofbeldis gegn fötluðum konum, sem byggja á gögnum lýðheilsukönnunarinnar Heilsa og líðan sem landlæknisembættið lagði fyrir árið 2017. Verkefnið er hluti af doktorsverkefni höfundar sem miðar að því að rann­saka ofbeldi gegn fötluðum konum. Í erindinu verður fjallað um niðurstöður lýsandi tölfræði og tvíkosta aðhvarfs­greiningar sem notuð var til að reikna líkur á ofbeldi hjá konum í ólíkri félags­legri stöðu. Niðurstöðurnar renna stoðum undir fyrri ályktanir um flókin vensl jaðarsetningar og ofbeldis og sýna að konur sem búa við margþætta mismunun eru mun líklegri til að hafa orðið fyrir ofbeldi en konur sem ekki eru í slíkri félagslegri stöðu.

Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir

Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 15:00
  • End Date
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Event Details
  • Start Date
    01/11, 2019 15:00
  • End Date
    01/11, 2019 16:45